21.4.2008 | 12:00
Vaxtaþversögn Ríkisbankanna
Ríkisbankinn, Íbúðalánasjóður hefur hafið vaxtalækkunarferli beint ofan í vaxtahækkunarferli Seðlabankans!
Seðlabankinn hækkar vexti eftir því sem verðbólga eykst en Íbúðalánasjóður lækkar að sama skapi þar sem ásókn fjárfesta í Íbúðabréf eykst í hlutfalli við þær verðbætur sem bréfin gefa.
Fyrirkomulag verðtryggðra lána hins opinbera er ekki bara meingallað út frá ofangreindum sjónarmiðum. Einnig er vert að geta þess að verðbætur leggjast ofan á höfuðstól lána en ekki afborganir með þeim afleiðingum að skuldarar finna síður fyrir hækkun verðbóta. Þannig virkar þetta fyrirkomulag sem staðdeyfing neytenda gegn verðbólgu.
Er einhver vitglóra í þessu fyrirkomulagi ?
20.4.2008 | 17:42
Björgun trúverðugleika
Einhvers misskilnings virðist gæta í umræðu um efnahagsmál að stjórnvöld þurfi að bjarga íslenskum bönkum sem þó eru orðnir að meirihluta til erlendir. Staðreyndin er hinsvegar sú að bankarnir hafa ekki óskað eftir slíku og ekkert á borðinu um að slíks gerist þörf. Það sem bjarga þarf er hinsvegar trúverðugleiki Seðlabankans auk íslensku krónunnar.
Öllum má vera ljóst að trúverðugleiki bankans er ekki til staðar þar sem bankanum hafi ekki takist markmið sitt hingað til. Mælt á mun verðtryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa er fjármálamarkaður sannfærður um að markmiðin muni ekki nást fyrir 2019 og því er trúverðugleikinn ekki til staðar inn í framtíðina heldur.
Reagan sagði að stjórnmál væru næst elsta atvinnugreinin sem stæði þeirri elstu þó nokkuð nærri.
Stjórnmál snúast öðru fremur um útdeilingu á bitlingum og greiða fyrir gjald.
Í beinu framhaldi er nærtækt að ætla að sama eigi við um stjórnmálaleg samskipti milli landa. Embættismenn greiða atkvæði á alþjóðaþingum, hvort heldur er á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna, Evrópuráðs, EFTA, Norðurlandaráðs osfrv. Skýrt dæmi um þetta er framboð Íslands til Öryggisráðsins þar sem pólitísku púðri og fjármunum er varið í að múta erlendum embættismönnum til að kjósa okkar embættismenn í ráðið án nokkurs sýnilegs tilgangs.
Spurningin hlýtur því að vera sú hvort Íslensk stjórnvöld séu þessa dagana að ganga bónleið til búðar eftir þeyting heimshorna á milli í leit að aðstoð vinveittra þjóða sem gætu hjálpað okkur til með að efla gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans og þar með bjarga krónunni ?
Ætla mætti að einfaldur samningur við öflugan granna eins og t.d. Norðmenn um sölu á skuldatryggingu (CDS) á skuldir íslenska ríkisins erlendis myndi valda flótta skortsölumanna.
Kosturinn við þessa aðgerð er að hún myndi auðvelda lántökumöguleika hins opinbera erlendis þegar til slíks kemur og gæti hugsanlega lappað upp á trúverðugleikann með lækkun skuldatrygginarálags sem gæti smitast yfir í álag bankanna. Að auki væri þetta aðgerð sem ekki myndi kosta neitt, þvert á móti væri tekjulind fyrir þann sem selur.
Íslensk stjórnvöld eiga hinsvegar ekki að reyna að tala upp gjaldmiðilinn eða styrkja gengið með öðrum hætti núna á meðan erlendir krónubréfaeigendur hægsteikjast og í raun lána okkur peninga vaxtalaust.
Krónan er ef eitthvað er of sterk miðað við núverandi gengi.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.4.2008 | 17:07
Mítan um Íbúðalánasjóð
Sagt er að bankar bjóði regnhlíf á góðum kjörum þegar sól skín í heiði en hirði aftur til baka þegar rignir.
Ímynd Íbúðalánasjóðs er að þar fari banki sem geti boðið betri lánakjör en aðrir bankar og að opinberir bankastarfsmenn á þeim bænum standi vörð um hagsmuni almennings öfugt við einkarekna banka. Ekkert er fjarri veruleikanum.
Það sem greinir að ríkisbankana, þ.e. Seðlabanka annarsvegar og svo Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun hinsvegar er að eingöngu sá fyrstnefndi getur prentað peninga. Íbúðalánasjóður þarf hinsvegar að taka peninga að láni rétt eins og aðrir bankar, leggja á sína álagningu og lána út aftur til íbúðakaupenda.
Íbúðalánasjóður nýtur hinsvegar forskots þar sem lántökur sjóðsins njóta ábyrgðar ríkisins. Þannig geta sparifjáreigendur eins og lífeyrissjóðir lánað Íbúðalánasjóð á lægri vöxtum og í lengri tíma en þeir annars myndu gera til einkaaðila.
Í skjóli ríkisábyrgðar geta starfsmenn sjóðsins nú státað sig af lægri vöxtum vegna þess forskots sem sjóðurinn nýtur. Með sama hætti gætu starfsmenn Leifsstöðvar á Keflavíkurflugvelli státað sig af sambærilegum afrakstri (lægra vöruverði) þar sem sú verslun nýtur ein þeirra forréttinda að þar er ekki innheimtur tollur eða virðisaukaskattur.
Fasteignasalar og fleiri kalla eftir að Íbúðalánasjoður láni út á niðurgreiddum vöxtum og hækki lánshlutfallið. Það væri óskandi ef fréttamenn myndu á móti spyrja hvort þeir sem kalli eftir slíku séu þá tilbúinr að lána Íbúðalánasjóði sitt eigið sparifé á lægri kjörum en bjóðast á almennum markaði hvort heldur er úr eigin vasa eða eigin lífeyrissjóði.
Ef landsmennn eru á hinn bógin tilbúnir að veita hver öðrum ábyrgð á íbúðalánum ætti slík ríkisábyrgð að geta komið til, óháð því hvort lán er tekið hjá einkareknum banka eða ríkisreknum.
Rekstur Íbúðalánasjóðs kostar um 900 milljónir á ári sem þó segir ekki nema lítið brot af þeim skaða sem sjóðurinn veldur landsmönnum. Eins og allir vita hefur verðbólga hér á landi verið knúin áfram af hækkun fasteignaverðs. Á sama tíma og Seðlabankinn hefur reynt að ná niður verðbólgu með hækkun vaxta, barðist Íbúðalánasjóður í skefjalausri samkeppni við einkarekna banka með því að lækka vexti og jók þar með á þenslu þá sem nú veldur búsifjum.
Vonandi lækka langtímavextir aftur þannig að fasteignaeigendum gefist færi á að endurfjármagna lán á bættum kjörum. Því miður mun þó Íbúðalánasjóur sitja eftir með sín eigin lán sem eru óuppgreiðanleg og mun að endingu þurfa að leita á náðir ríkissjóðs til bjargar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 23:43
Orð og athafnir
Því miður skortir mikið á að orð manna og athafnir séu sett í samhengi en slíkt ætti að vera hlutverk fréttamanna öðrum fremur. Við síðustu vaxtahækkun Seðlabankans lét Davíð Oddson ansi mörg orð falla um afrakstur alnafna síns Davíðs Oddssonar forsætisráðherra sem og samverkamanns Geirs Haarde.
Í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabankans 28. Mars sagði Davíð m.a:
Það þarf staðfestu til að standa af sér kröfur um aukin útgjöld.........því fullyrða má með öruggri vissu, að það verður vaxandi og raunverulegri þörf fyrir peningana innan tíðar og því mikill skaði og fyrirhyggjuleysi, ef menn gleyma sér svo í góðærinu, að þeir eigi ekki nóg til mögru áranna
Í tíð sinni sem forsætisráðherra sýndi Davíð "staðfestu" sína með því að þrefalda ríkisútgjöldin og gjaldeyrisforði Seðlabankans þótti hæfilegur í heilum 60 milljörðum eða sem nemur góðri dagsveltu á gjaldeyrismarkaði. Davíð og Geir reistu menningarhallir um allt land, jarðgöng og fóru meira að segja í mótvægisaðgerðir í neikvæðu atvinnuleysi. Hvar var "fyrirhyggjan" og "staðfestan" í verki ?
En Davíð virðist vera hættur að líta í spegil þegar hann gerir grín að öðrum:
Bankastjóri eins stærsta banka heims sagði sem svo: Meðan hljómsveitin spilar, dönsum við. Hann var látinn hætta skömmu síðar, þegar bankinn sýndi ógurlegt tap
Davíð forsætisráðherra seldi hlut ríkisins í Landsbankanum og Búnaðarbankanum á um 34 Milljarða en ætlar nú að skuldsetja ríkissjóð um sennilega 10-20 falda þá upphæð til að bjarga sínum eigin Seðlabanka. Íslenskir stjórnmálamenn eru hinsvegar aldrei "látnir hætta"
...og Davíð á ekki í neinum vandræðum með að spá fyrir um framtíðina:
þá er ekki endilega líklegt að íslenska þjóðin sé að sigla inn í kreppu. Miklu líklegra er að nú hægi nokkuð á og í versta falli tökum við nokkra dýfu, sem ætti þó ekki að þurfa að standa lengi.
Vonandi verður ekki þörf á að rifja upp þessi fleigu orð. Hinsvegar ættu menn að hafa í huga að ekki er til eitt dæmi í hagsögunni um svokallaða "dýfu" eða "snertilendingu" að afloknu þensluskeiði.
Sjaldan er langt í föðurlegar ráðleggingar:
En hitt er rétt að hafa í huga, að ef menn draga það að laga sig að aðstæðum og rifa seglin, þá er ekki ómögulegt að tiltölulega lítil dýfa geti breyst úr því fyrirbæri í eitthvað sem kalla mætti kreppu. Við gætum þá kennt sjálfum okkur um hana. Við skulum ekki láta slíkan óþarfa gerast.
Hvar og hvenær hafa Geir og Davíð rifað seglin í ríkisrekstrinum ? Við skulum a.m.k. vona að Geir hafi eitthvað gert frá aðalfundi Seðlabankans til að slá á verðbólgu og minnka eftirspurn þannig að Davíð geti þakkað Geir fyrir unnin afrek með því að halda vöxtum óbreyttum nú þegar einkaneysla er klárlega að dragast saman og fasteignamarkaðurinn er að hruni kominn.
Viðskipti og fjármál | Breytt 11.4.2008 kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2008 | 13:01
Heimatilbúinn vandi
Út er komin ný stýrivaxtaspá Landsbankans þar sem segir:
"Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og hrávöru, lækkandi gengi krónunnar, kaupmáttartrygging launasamninga og vöxtur opinberra fjárfestinga leggjast nú á eitt um að kynda undir verðbólguvæntingar."
- Öllum ætt að vera ljóst að Seðlabanki Íslands hefur engin áhrif á hrávöruverð
- Seðlabankinn hefði átt að gera ráð fyrir hærri verðbólgu þegar gengið styrktist um efni fram og hækka fyrr. Með sama skapi ætti bankinn að horfa fram hjá einskiptis hækkun verðbólgu vegna gengisveikingar enda um leiðréttingu að ræða.
- Kaupmáttartrygging umfram hagvöxt eða aukna framleiðni er vitaskuld útilokað mál og í raun alveg augljóst að fyrirtæki verða að skera niður launakostnað við núverandi vaxtastig. Verkalýðsfélög ættu að semja um launalækkanir gegn hærra atvinnustigi.
- Vöxtur opinberra fjárfestinga er vitaskuld brjálæðislegt fyrirbæri á þennslutímum en flokkast sem "aðhaldssemi í ríkisfjármálum" hjá forsætis- og fjármálaráðherra.
Ágætis lýsing á ríkisfjármálunum gæti hinsvegar verið eitthvað á þessa leið:
"There are two sides of the balance sheet - the left side and the right side.
On the left side, there is nothing right, and on the right side, there is nothing left!"
Nú er lag að hækka vexti með vaxtalækkun. Hljómar öfugsnúið en með vaxtalækkun myndu mörg fyrirtæki og einstaklingar ákveða að eyða út gengisáhættu og snúa erlendum lánum yfir í innlend enda einsýnt að breytilegir vextir erlendra lána muni snarhækka á næstu misserum.
3.4.2008 | 14:24
Öryggi og Öryggistilfinning
Bruce Schneier skrifar afar athyglisverðar greinar um öryggismál í víðu samhengi. Í þessari grein veltir hann upp þeim mun sem er á milli öryggistilfinningu og öryggis (þó vissulega sé aldrei til fullkomið öryggi).
Stjórnvöld hafa í hendi sér að auka öryggi og vonast til að fólk finni til öryggistilfinningar eða auka á öryggistilfinngu án þess að auka öryggi og vona að fólk taki ekki eftir platinu. Seinni valkosturinn er augljóslega fljótlegri og einfaldari leið að öllu jöfnu.
Flestir hafa upplifað undarlegar öryggisráðstafanir hins opinbera í tengslum við flugferðir svo sem eins og gereyðingu vatsbrúsa. Nýjustu aðgerðir ríkisins í efnahagsmálum snúast um hvorutveggja að skapa öryggis- og óöryggis-tilfinningu á sama tíma.
Landsmenn eiga að finna til efnahgslegs öryggis en spákaupmenn eiga að finna til óöryggis án þess þó að neitt hafi verið gert í aðra hvor áttina.
Landsmenn geta vissulega reitt sig á orð forsætisráðherrans sem hingað til hefur fært landsmönnum góðæri að láni. Að sama skapi geta erlendu íslandsóvinirnir reitt sig á óvæntar ófarir a bear trap needs to be a surprise
Hingað til hafa stjórnvöld fylgt staðfastlega "ekki gera neitt" stefnunni og ekki haft nein tromp á hendi ef sú stefna gengi ekki upp. Við skulum vona að Geir hafi einhver spil á hendi ef "bjarnargildran" virkar ekki því þá verður vart aftur snúið.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2008 | 14:59
Áskorun Björgvins til Björgvins
Björgvin G Sigurðsson skorar í gær á kaupmenn að halda aftur af verðhækkunum.
Nú vill þannig til að alnafni Björgvins rekur einmitt eina af stærstu verslunum landsins sem heitir Fríhöfnin í Keflavík.
Því væri nærtækt að ætla að viðskiptamaðurinn Björgvin G Sigurðsson muni hlýða ákalli alnafna síns Björgvins G Sigurðssonar viðskiptaráðherra og halda aftur af hækkunum í ríkisbúðinni í Leifsstöð og draga til baka þær hækkanir sem þar hafa orðið.
Sú verslun er augljóslega rekin í samkeppni við aðrar verslanir á Íslandi með forgjöf þar sem ekki þarf að greiða skatta og skyldur af ríkisrekstrinum og ætti hún því að vera aflögu fær í hinu samstillta átaki viðskiptaráðherrans.
Vonandi verður svo hægt að velta upp þeirri spurningu hvers vegna hið opinbera sinnir slíkum samkeppnisrekstri og hvaða réttlætismál það er að fella niður tolla til þeirra sem ferðast til útlanda ?
1.4.2008 | 09:42
Sálgæsluhlutverk stjórnmálamanna
Undarlegt að krónan skuli veikjast nú í morgunsárið þar sem Geir fullyrti í gær að botninum væri náð bæði með gengi og hlutabréf.
Geir hefur verið óþreitandi í samkeppnisrekstri við einkaaðila á hinum ýmsu sviðum og því nærtækt að spyrja hvenær greiningardeild forsætisráðuneytisins tekur til starfa ?
Í öllu falli hlýtur að vera gott að reiða sig á fjármálaráðgjöf hins aðhaldssama forsætisráðherra.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2008 | 17:50
Hvað er til ráða ?
Efnahagsmálin eru í ólestri og þá sér í lagi tvennt, verðbólga og skuldasöfnun. Hvorutveggja nokkuð sem öllum mátti vera ljóst að í stefndi. Ekki gera neitt stefna ríkisstjórnarinnar er talin pólitískt séð, betri aðferð heldur en raunverulegar lausnir. Ástæðan er líklega sú að úrlausnir kallar á viðurkenningu á fyrri mistökum og slíkt þykir pólitískt ekki klókt.
Allt í einu er krónan í brennidepli og þá nánar tiltekið hin mjög svo fyrirsjáanlega gengisveiking. Veiking krónunnar er hinsvegar afleiðing (en ekki orsök) af óstjórn í efnahagsmálum.
Ráðamenn láta sem gengisveiking krónunnar sé eins og hvert annað veðurfræðilegt fyrirbæri og nota gjarnan samlíkingu á borð við batnandi tíð með hækkandi sól. Veruleikinn, sem stjórnmálamenn forðast að blanda inn í málið er hinsvegar sá að við eyðum um efni fram og höfum um langa tíð safnað skuldum að mestu vegna neyslu. Þess vegna veikist krónan og á að veikjast þar til jafnvægi í viðskiptum við útlönd er náð.
Ekki hefur staðið á pólitískum hjáleiðum í efnahagsumræðunni. Gengisfall krónunnar er vegna óeðlilegra afskipta að sögn Morgunblaðsins og óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið segir Seðlabankastjóri. Á hinn bóginn vantaði öll gýfuryrði og áhyggjur þegar krónan styrktist innistæðulaust af sömu ástæðum og nú veikja hana, þó með öfugum formerkjum sé. Af hverju þagði Morgunblaðið þunnu hljóði þegar krónan styrktist vegna lánaflæðis sem aftur þrengdi að útflutningsatvinnuvegum og ýtti undir erlenda skuldasöfnun ?
Gengið veikist ekki af erlendri illgirni frekar en að styrkingin hafi verið vegna erlends velvilja! Hér eru svokölluð undirstöðuatriði að verkum en leiðrétt fyri vaxtajöfnuð ætti gengið að falla mun meira en ekki styrkjast.
Núverandi Seðlabankastjóri segist hafa varað við erlendum lántökum almennings. Sem forsætisráðherra gerði hann þó allt sem hægt var að gera til að gera slíka lántöku beinlínis skynsamlega. Nú þegar bankar halda að sér höndum í útlánum og vaxtaskiptasamningum í gjaldeyri boðar sami seðlabankastjóri ekki einasta opinbera, heldur alþjóðlega rannsókn á málinu. Bankastjórinn segir jafnframt að mikilvægt sé að gengisveikingin gangi til baka Úr því viðsnúningur er mikilvægur hlýtur spurningin að vera hvers vegna seðlabanki og ríkissjóður skuli ekki hafa búið þannig í haginn að hægt væri að spyrna við slíkri veikingu ? Grundvallaratriði er þó að þeirri spurningu sé svarað hvers vegna gengisveiking sé slæm þegar viðskiptahalli er til staðar?
Mikilvægt er einnig að skoða þátt núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra í því að styrkja baráttu Seðlabankans á móti verðbólgu. Í aðdraganda stóriðjuframkvæmda óskaði ég eftir viðtali við Geir Haarde sem þá var fjármálaráðherra. Lék mér forvitni á að vita hvernig hann hefði hugsað sér að haga ríkisfjármálum til að vinna á móti fyrirsjáanlegum þensluáhrifum. Í sinni tíð hafði hann þá þegar afrekað að tvöfalda ríkisútgjöldin sem voru komin yfir 40% af landsframleiðslu. Ekki stóð á svarinu:
Sæll Arnar, mér þykir leiðinlegt að þú skulir vilja tala við mig því ég hef engan áhuga á að tala við þig
Ljómandi skýrt svar þar sem augljóst var að Geir ætlaði sér engu að breyta og því rétt að veðja á hækkun vaxta og verðbólgu og hefur útlitið fyrir slíka spákaupmensku aldrei staðið betur. Nú er svo komið að ríkisútgjöld hafa þrefaldast á valdatíma hins aðhaldssama forsætisráðherra og skríða brátt yfir 50% markið sem hlutfall af landsframleiðslu. Á þenslutímum er hvergi slegið af í útgjaldaveislu Geirs, jarðgöng, menningarhallir, 3.000 nýjir ríkisstarfsmenn, mótvægisaðgerðir og skefjalaus samkeppni Íbúðalánasjóðs við viðskiptabanka. Alls jukust hin aðhaldssömu fjárlög Geirs og Árna um 63 milljarða á milli 2006 og 2007 (árs kartöflunnar). Allar útgjaldaleiðir liggja í ríkiskassann sem í flæða skattekjur vegna skuldsetningar fyrirtækja og almennings í erlendri mynt. Þetta kallar Geir aðhaldssemi í ríkisfjármálum og hvetur landsmenn til að herða sultarólina.
Forsætisráðherra er tíðrætt um hinn skuldlausa ríkissjóð sem að vísu er einungis skuldlaus ef horft er framhjá skuldunum. Þannig hlaupa lífeyrissjóðsskuldir hins opinbera á milljarðatugum, ábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs hundruðum milljarða og augljóslega væri ekki hægt að selja skuldatrygginarálag á skuldir ríkissjóðs erlendis ef skuldirnar væru ekki til! Að auki hefur forsætisráðherra tilkynnt að ríkissjóður muni verða skuldsettur ef bankarnir lenda í vanda. Betra væri fyrir íslenska þjóð að vera án forsætisráðherra heldur en manni sem ekkert gerir ef á bjátar og telur sig geta litið framhjá framtíðarhorfum varðandi skuldsetningu.
Forsætisráðherra er svo harðákveðinn í að gera ekki neitt að nýlega boðaði hann til fréttamannafundar til að undirstrika þá stefnu. Er fundurinn því líklega einsdæmi í sögu fréttamannafunda forsætisráðuneytisins. Í gær kom þó loks að því að forsætisráðherra gaf eftir með ekki gera neitt stefnu sína og ætlar nú að reyna að handstyrkja krónuna með því að skuldsetja seðlabankann. Markmiðið virðist vera að bankinn geti stundað einhverskonar niðurgreiðslu á gjaldeyri til að sópa verðbólgumælingu undir teppið. Forsætisráðherra virðist, þrátt fyrir hagfræðimenntun, ekki skilja að skuldsetning er orsök þess meins sem við blasir og því alls ekki lausn vandans. Morgunblaðið slær svo á svipaða strengi og leggur til að útsjónarsamar gildrur verði lagðar fyrir þá landráðamenn sem stunda spákaupmennsku með gjaldeyri og hlutabréf. Þessi tillaga fer sennilega á spjöld sögunnar sem einhver allra mesta þvæla sem blaðið hefur látið frá sér.
En hvað er til ráða ? Allar eftirfarandi umbætur eiga það sammerkt að vera hugsaðar til lengri tíma litið en sumar hverjar myndu einnig slá á verðbólgu til skemmri tíma:
- Afnema verðtryggð lán Íbúðalánasjóðs (sem hingað til hafa stórlega tafið fyrir virkni stýrivaxtahækkana)
- Til vara; breyta fyrirkomulagi íbúðalána þannig að verðbætur leggist af meiri þunga á afborganir í stað þess að bætast ofan á höfuðstól.
- Afnema samkeppnisrekstur Íbúðalánasjóðs
- Afnema innflutningshöft og tolla á matvælum (reyndar mætti tollahandbókin öll hverfa)
- Lækka álögur á eldsneyti
- Draga saman erlend útgjöld ríkissjóðs (þar með talið framboð til öryggisráðsins)
- Endurskoða verðbólgumælingu Hagstofunnar sem augljóslega hefur t.a.m. ofmetið hækkun fasteignaverðs undanfarinna ára og vantalið lækkanir undanfarinna mánaða. Hér er alls ekki verið að tala um að breyta vísitölumælingunni heldur bæta hana.
- Breyta lögum þannig að við ákvörðun stýrivaxta horfi seðlabanki til samræmdrar vísitölumælingar á evrusvæðinu en líti framhjá þáttum sem bankinn hefur ekki áhrif á eins og verðbreytingar á hrávörum.
- Fresta eða hætta við allar opinberar framkvæmdir þar til eftir fyrstu vaxtalækkanir Seðlabankans.
- Setja ríkissjóð á verðbólgumarkmið með þeim hætti að á þenslutímum beri ríkissjóði að draga hlutfallslega úr útgjöldum sem nemi þenslu hagkerfisins í prósentum talið.
- Heimila Seðlabanka að semja um lánalínur til sölu á skuldatryggingum (CDS) á bankana enda búið að lýsa því yfir að ríkissjóður muni hvort eð er bjarga bönkunum gerist slíks þörf.
- Verja tekjuafgangi ríkissjóðs í uppbyggingu gjaldeyrisforða auk niðurgreiðslu skulda.
- Hefja aðildarviðræður og tilkynna að stefnt verði að upptöku Evru. Krónan er búin að vera.
Bloggar | Breytt 31.3.2008 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Arnar Sigurðsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar