Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er til ráða ?

Efnahagsmálin eru í ólestri og þá sér í lagi tvennt, verðbólga og skuldasöfnun.  Hvorutveggja nokkuð sem öllum mátti vera ljóst að í stefndi.  “Ekki gera neitt stefna” ríkisstjórnarinnar er talin pólitískt séð, betri aðferð heldur en raunverulegar lausnir. Ástæðan er líklega sú að úrlausnir kallar á viðurkenningu á fyrri mistökum og slíkt þykir pólitískt ekki klókt.

Allt í einu er krónan í brennidepli og þá nánar tiltekið hin mjög svo fyrirsjáanlega gengisveiking.  Veiking krónunnar er hinsvegar afleiðing (en ekki orsök) af óstjórn í efnahagsmálum. 

Ráðamenn láta sem gengisveiking krónunnar sé eins og hvert annað veðurfræðilegt fyrirbæri og nota gjarnan samlíkingu á borð við batnandi tíð með hækkandi sól.  Veruleikinn, sem stjórnmálamenn forðast að blanda inn í málið er hinsvegar sá að við eyðum um efni fram og höfum um langa tíð safnað skuldum að mestu vegna neyslu.  Þess vegna veikist krónan og á að veikjast þar til jafnvægi í viðskiptum við útlönd er náð. 

Ekki hefur staðið á pólitískum hjáleiðum í efnahagsumræðunni.  Gengisfall krónunnar er vegna “óeðlilegra afskipta” að sögn Morgunblaðsins og “óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið” segir Seðlabankastjóri.  Á hinn bóginn vantaði öll gýfuryrði og áhyggjur þegar krónan styrktist innistæðulaust af sömu ástæðum og nú veikja hana, þó með öfugum formerkjum sé.  Af hverju þagði Morgunblaðið þunnu hljóði þegar krónan styrktist vegna lánaflæðis sem aftur þrengdi að útflutningsatvinnuvegum og ýtti undir erlenda skuldasöfnun ?  

Gengið veikist ekki af erlendri illgirni frekar en að styrkingin hafi verið vegna erlends velvilja!  Hér eru svokölluð undirstöðuatriði að verkum en leiðrétt fyri vaxtajöfnuð ætti gengið að falla mun meira en ekki styrkjast. 

Núverandi Seðlabankastjóri segist hafa varað við erlendum lántökum almennings.  Sem forsætisráðherra gerði hann þó allt sem hægt var að gera til að gera slíka lántöku beinlínis skynsamlega.  Nú þegar bankar halda að sér höndum í útlánum og vaxtaskiptasamningum í gjaldeyri boðar sami seðlabankastjóri ekki einasta opinbera, heldur alþjóðlega rannsókn á málinu. Bankastjórinn segir jafnframt að “mikilvægt sé að gengisveikingin gangi til baka”  Úr því viðsnúningur er “mikilvægur” hlýtur spurningin að vera hvers vegna seðlabanki og ríkissjóður skuli ekki hafa búið þannig í haginn að hægt væri að spyrna við slíkri veikingu ?  Grundvallaratriði er þó að þeirri spurningu sé svarað hvers vegna gengisveiking sé slæm þegar viðskiptahalli er til staðar?

Mikilvægt er einnig að skoða þátt núverandi og fyrrverandi forsætisráðherra í því að styrkja baráttu Seðlabankans á móti verðbólgu.  Í aðdraganda stóriðjuframkvæmda óskaði ég eftir viðtali við Geir Haarde sem þá var fjármálaráðherra.  Lék mér forvitni á að vita hvernig hann hefði hugsað sér að haga ríkisfjármálum til að vinna á móti fyrirsjáanlegum þensluáhrifum.  Í sinni tíð hafði hann þá þegar afrekað að tvöfalda ríkisútgjöldin sem voru komin yfir 40% af landsframleiðslu.  Ekki stóð á svarinu: 

“Sæll Arnar, mér þykir leiðinlegt að þú skulir vilja tala við mig því ég hef engan áhuga á að tala við þig” 

 

Ljómandi skýrt svar þar sem augljóst var að Geir ætlaði sér engu að breyta og því rétt að veðja á hækkun vaxta og verðbólgu og hefur útlitið fyrir slíka spákaupmensku aldrei staðið betur.   Nú er svo komið að ríkisútgjöld hafa þrefaldast á valdatíma hins “aðhaldssama” forsætisráðherra og skríða brátt yfir 50% markið sem hlutfall af landsframleiðslu.  Á þenslutímum er hvergi slegið af í útgjaldaveislu Geirs, jarðgöng, menningarhallir, 3.000 nýjir ríkisstarfsmenn,  mótvægisaðgerðir og skefjalaus samkeppni Íbúðalánasjóðs við viðskiptabanka.  Alls jukust hin aðhaldssömu fjárlög Geirs og Árna um 63 milljarða á milli 2006 og 2007 (árs kartöflunnar).  Allar útgjaldaleiðir liggja í ríkiskassann sem í flæða skattekjur vegna skuldsetningar fyrirtækja og almennings í erlendri mynt.  Þetta kallar Geir “aðhaldssemi í ríkisfjármálum” og hvetur landsmenn til að herða sultarólina. 

Forsætisráðherra er tíðrætt um hinn skuldlausa ríkissjóð sem að vísu er einungis skuldlaus ef horft er framhjá skuldunum.  Þannig hlaupa lífeyrissjóðsskuldir hins opinbera á milljarðatugum, ábyrgðir vegna Íbúðalánasjóðs hundruðum milljarða og augljóslega væri ekki hægt að selja skuldatrygginarálag á  skuldir ríkissjóðs erlendis ef skuldirnar væru ekki til!  Að auki hefur forsætisráðherra tilkynnt að ríkissjóður muni verða skuldsettur ef bankarnir lenda í vanda.  Betra væri fyrir íslenska þjóð að vera án forsætisráðherra heldur en manni sem ekkert gerir ef á bjátar og telur sig geta litið framhjá framtíðarhorfum varðandi skuldsetningu. 

Forsætisráðherra er svo harðákveðinn í að gera ekki neitt að nýlega boðaði hann til fréttamannafundar til að undirstrika þá stefnu.  Er fundurinn því líklega einsdæmi í sögu fréttamannafunda forsætisráðuneytisins.  Í gær kom þó loks að því að forsætisráðherra gaf eftir með “ekki gera neitt” stefnu sína og ætlar nú að reyna að handstyrkja krónuna með því að skuldsetja seðlabankann.  Markmiðið virðist vera að bankinn geti stundað einhverskonar niðurgreiðslu á gjaldeyri til að sópa verðbólgumælingu undir teppið.  Forsætisráðherra virðist, þrátt fyrir hagfræðimenntun, ekki skilja að skuldsetning er orsök þess meins sem við blasir og því alls ekki lausn vandans.  Morgunblaðið slær svo á svipaða strengi og leggur til að útsjónarsamar gildrur verði lagðar fyrir þá landráðamenn sem stunda spákaupmennsku með gjaldeyri og hlutabréf.  Þessi tillaga fer sennilega á spjöld sögunnar sem einhver allra mesta þvæla sem blaðið hefur látið frá sér. 

En hvað er til ráða ?  Allar eftirfarandi umbætur eiga það sammerkt að vera hugsaðar til lengri tíma litið en sumar hverjar myndu einnig slá á verðbólgu til skemmri tíma:

  • Afnema verðtryggð lán Íbúðalánasjóðs (sem hingað til hafa stórlega tafið fyrir virkni stýrivaxtahækkana)
  • Til vara; breyta fyrirkomulagi íbúðalána þannig að verðbætur leggist af meiri þunga á afborganir í stað þess að bætast ofan á höfuðstól.
  • Afnema samkeppnisrekstur Íbúðalánasjóðs
  • Afnema innflutningshöft og tolla á matvælum (reyndar mætti tollahandbókin öll hverfa)
  • Lækka álögur á eldsneyti
  • Draga saman erlend útgjöld ríkissjóðs (þar með talið framboð til öryggisráðsins)
  • Endurskoða verðbólgumælingu Hagstofunnar sem augljóslega hefur t.a.m. ofmetið hækkun fasteignaverðs undanfarinna ára og vantalið lækkanir undanfarinna mánaða. Hér er alls ekki verið að tala um að breyta vísitölumælingunni heldur bæta hana.
  • Breyta lögum þannig að við ákvörðun stýrivaxta horfi seðlabanki til samræmdrar vísitölumælingar á evrusvæðinu en líti framhjá þáttum sem bankinn hefur ekki áhrif á eins og verðbreytingar á hrávörum.
  • Fresta eða hætta við allar opinberar framkvæmdir þar til eftir fyrstu vaxtalækkanir Seðlabankans.
  • Setja ríkissjóð á verðbólgumarkmið með þeim hætti að á þenslutímum beri ríkissjóði að draga hlutfallslega úr útgjöldum sem nemi þenslu hagkerfisins í prósentum talið.
  • Heimila Seðlabanka að semja um lánalínur til sölu á skuldatryggingum (CDS) á bankana enda búið að lýsa því yfir að ríkissjóður muni hvort eð er bjarga bönkunum gerist slíks þörf.
  • Verja tekjuafgangi ríkissjóðs í uppbyggingu gjaldeyrisforða auk niðurgreiðslu skulda.
  • Hefja aðildarviðræður og tilkynna að stefnt verði að upptöku Evru.  Krónan er búin að vera.

Um bloggið

Arnar Sigurðsson

Höfundur

Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband