13.4.2008 | 17:07
Mítan um Íbúðalánasjóð
Sagt er að bankar bjóði regnhlíf á góðum kjörum þegar sól skín í heiði en hirði aftur til baka þegar rignir.
Ímynd Íbúðalánasjóðs er að þar fari banki sem geti boðið betri lánakjör en aðrir bankar og að opinberir bankastarfsmenn á þeim bænum standi vörð um hagsmuni almennings öfugt við einkarekna banka. Ekkert er fjarri veruleikanum.
Það sem greinir að ríkisbankana, þ.e. Seðlabanka annarsvegar og svo Íbúðalánasjóð og Byggðastofnun hinsvegar er að eingöngu sá fyrstnefndi getur prentað peninga. Íbúðalánasjóður þarf hinsvegar að taka peninga að láni rétt eins og aðrir bankar, leggja á sína álagningu og lána út aftur til íbúðakaupenda.
Íbúðalánasjóður nýtur hinsvegar forskots þar sem lántökur sjóðsins njóta ábyrgðar ríkisins. Þannig geta sparifjáreigendur eins og lífeyrissjóðir lánað Íbúðalánasjóð á lægri vöxtum og í lengri tíma en þeir annars myndu gera til einkaaðila.
Í skjóli ríkisábyrgðar geta starfsmenn sjóðsins nú státað sig af lægri vöxtum vegna þess forskots sem sjóðurinn nýtur. Með sama hætti gætu starfsmenn Leifsstöðvar á Keflavíkurflugvelli státað sig af sambærilegum afrakstri (lægra vöruverði) þar sem sú verslun nýtur ein þeirra forréttinda að þar er ekki innheimtur tollur eða virðisaukaskattur.
Fasteignasalar og fleiri kalla eftir að Íbúðalánasjoður láni út á niðurgreiddum vöxtum og hækki lánshlutfallið. Það væri óskandi ef fréttamenn myndu á móti spyrja hvort þeir sem kalli eftir slíku séu þá tilbúinr að lána Íbúðalánasjóði sitt eigið sparifé á lægri kjörum en bjóðast á almennum markaði hvort heldur er úr eigin vasa eða eigin lífeyrissjóði.
Ef landsmennn eru á hinn bógin tilbúnir að veita hver öðrum ábyrgð á íbúðalánum ætti slík ríkisábyrgð að geta komið til, óháð því hvort lán er tekið hjá einkareknum banka eða ríkisreknum.
Rekstur Íbúðalánasjóðs kostar um 900 milljónir á ári sem þó segir ekki nema lítið brot af þeim skaða sem sjóðurinn veldur landsmönnum. Eins og allir vita hefur verðbólga hér á landi verið knúin áfram af hækkun fasteignaverðs. Á sama tíma og Seðlabankinn hefur reynt að ná niður verðbólgu með hækkun vaxta, barðist Íbúðalánasjóður í skefjalausri samkeppni við einkarekna banka með því að lækka vexti og jók þar með á þenslu þá sem nú veldur búsifjum.
Vonandi lækka langtímavextir aftur þannig að fasteignaeigendum gefist færi á að endurfjármagna lán á bættum kjörum. Því miður mun þó Íbúðalánasjóur sitja eftir með sín eigin lán sem eru óuppgreiðanleg og mun að endingu þurfa að leita á náðir ríkissjóðs til bjargar.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:10 | Facebook
Um bloggið
Arnar Sigurðsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 364
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.